Mikill fjöldi fólks á Torfunefsbryggju í dag

Fjöldi fólks lagði leið sína á Torfunefsbryggju á Akureyri í dag og tók þátt í hátíðarhöldum í tilefni sjómannadagsins, í blíðskaparveðri. Það voru Sjómannafélag Eyjafjarðar og Hollvinir Húna II. sem buðu til hátíðarinnar. Formleg dagskrá hófst strax í morgun þegar bæjarbúar drógu fána að hún og einnig voru sjómannamessur í Akureyrarkirkju og Glerárkirkju, þar sem jafnframt var lagður blómsveigur að minnismerki um týnda og drukknaða sjómenn. Eftir hádegið sigldu Húni II. og Haffari frá Torfunefsbryggju að Sandgerðisbót en þar hittu þeir smábátaeigendur sem sigldu með þeim í hópsiglingu til baka að Torfunefsbryggju þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Séra Arnaldur Bárðarson flutti hugvekju og Kór Glerárkirkju söng. Þá lék Lúðrasveit Akureyrar nokkur lög á bryggjunni, Karlakór Akureyrar/Geysir tók lagið og þeir félagar Örn Árnason og Óskar Pétursson skemmtu gestum. Einnig stigu á svið þau Helena Eyólfsdóttir og Þorvaldur Halldórsson og sungu sjómannalög og danshópurinn Vefarinn sýndi þjóðdansa. Sjómenn áttu svo að fara í koddaslag en þegar sú dagskrá átti að hefjast hafði aðeins einn sjómaður skráð sig til leiks. Þá var Arngrímur Jóhannsson tepptur á Grænlandi og gat því ekki lent sjóflugvél sinni á Pollinum eins og til stóð. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF LÍF, kom hins vegar norður og sýndu áhafnameðlimir hennar bæjarbúum björgun úr sjó á Pollinum. Seinni partinn í dag fór svo Húni í siglingu með sjómenn og fjölskyldur þeirra.

Nýjast