Vísa þurfti frá fjölmörgum umsækjendum um námskeiðið Sumarlestur - Akureyri bærinn minn, þar sem það er fullbókað
og ekki hægt að koma fleiri námskeiðum við.
Hildur Sigurðardóttir barnabókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri og einn umsjónarmanna námskeiðsins segir það afar leitt
og reynt verði að koma á fleiri námskeiðum á næsta ári. Þetta er áttunda árið sem efnt er til námskeiðs af
þessu tagi í bænum hefur áhuginn farið stigvaxandi. "Það er greinilega einhver vakning í þessum efnum núna, " segir Hildur, en
námskeiðið er fyrir börn í 3. og 4. bekk grunnskóla, það hefst í næstu viku og síðasta námskeiði lýkur 27.
júní. Markmið þess er að hvetja börn til að lesa og slá ekki slöku við þá iðju þó sumar sé gengið
í garð. Margt annað er í boði, söfn eru skoðuð og saga bæjarins og menning kynnt börnunum auk þess sem farið er í
skoðunarferð í Listagilið og Samkomuhúsið. Alls er pláss fyrir 30 börn á hverju námskeiði eða 90 alls. "Með þessu
námskeiði komum við til móts við börn sem ekki hafa áhuga á hefðbundnum íþróttanámskeiðum en það er
greinilegt miðað við áhugann og að vísa þurfti mörgum frá núna að það er vakning hjá börnum hvað lesturinn
varðar," segir Hildur.