"Það sem vekur strax athygli er að enn aukast sjúkraflug á milli ára og er aukningin um 11% miðað við árið 2007. Töluverð aukning hefur einnig orðið með sjúkrabifreiðum liðsins eða um 21%," segir Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri Slökkviliðsins á Akureyri um samantekt á tölfræði Slökkviliðsins fyrir fyrstu 6 mánuði þessa árs.
Aukning hefur verið í útköllum milli ára fyrstu 6 mánuði ársins. Um 11% aukning er í sjúkraflugi á milli 2007 og 2008. Sambærileg fjölgun var einnig á milli 2006 og 2007 á sama tíma. Sjúkrabílar liðsins hafa einnig verið kallaðir út oftar á milli ára og er sú aukning um 26 %. Fjöldi útkalla á dælubíla liðsins er sambærilegur á milli ára.Miðað við þær rauntölur sem þegar eru komnar fram þá er von á því að öll met verði slegin í fjölda útkalla hjá liðinu þetta árið. Mikið er leitað til liðsins enda stoðeining annarra viðbragðsaðila á Norðurlandi.