Kjartan Sigtryggsson opnaði sýninguna "Í framan - In the face" á Café Karólínu á Akureyri sl. laugardag og stendur hún til 13. júní. Jón Laxdal Halldórsson myndlistarmaður er með tvær sýningar í gangi í Gilinu á Akureyri þessa dagana. Á Karólínu Restaurant stendur yfir sýningin úr "Úr formsmiðju" og verður hún í gangi fram á haust. Nýlega var svo opnuð sýning á verkum Jóns í Jónas Viðar Gallery hinum megin götunnar. Þar eru sýndir hlutir, (objektar) gerðir úr bókum, pappa, gleri og þaksaumi, allir nýir af nálinni undir heitinu; fáeinir fortitlar og bók eftir Mann. Sýningin stendur til 11. maí.
Sjónlistamaðurinn Steinn Kristjánsson opnar sjónlistasýninguna; Innilega útilegu, í Populus tremula í dag, laugardaginn 10. maí kl. 14.00. Þar verður sumarfríinu þjófstartað og hver veit nema tekin verði nokkur gömul og góð útilegulög og jafnframt frumflutt ný innilegulög. Þarna er um að ræða tilraun um mörk innra og ytra rýmis í formi hinnar einu sönnu íslensku útilegustemmingar. Einnig opið sunnudaginn 11. maí kl. 14:00-17:00.
Á morgun, sunnudaginn 11. maí kl. 20:00, verða haldnir tónleikar í Ketilhúsinu á Akureyri, þar sem Anna Jónsdóttir sópransöngkona og Sigríður Freyja Ingimarsdóttir píanóleikari munu flytja lög af nýútkomnum geisladiski, Móðurást. Á geisladiskinum eru fjölbreytt íslensk sönglög, sem þó eiga það öll sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um móðurina.
Yfirliðsbræður halda söng- og grínskemmtun í KA-heimilinu mánudaginn 12. maí nk. kl. 20.00, á annan í hvítasunnu. Yfirliðsbræður eru þeir Óskar Pétursson og Örn Árnason ásamt undirleikaranum Jónasi Þórir. Samstarf þessara manna er ekki nýtt af nálinni en þeir hafa komið fram áður þó ekki undir nafninu Yfirliðsbræður. Söng- og grínskemmtun þessi er sú fyrsta í langri tónleikaröð þeirra félaga á landsvísu en þar munu þeir fylgja eftir geisladiski þar sem þeir syngja lög eftir Everly Brothers.