Strax í kvöld kl. 21.00 verða Kertaljósatónleikar Harðar Torfasonar á Græna hattinum. Hörður á alltaf tryggan fjölda aðdáenda enda alltaf skemmtilegir tónleikar hjá Herði og mikil upplifun. Á morgun, föstudagskvöld kl. 22.00 stíga Blúsmenn Andreu á svið. Þar fer magnaðasta blússöngkona landsins Andrea Gylfadóttir með sína blússveit sem er skipuð snillingunum; Guðmundi Péturssyni gítar, Birgi Bragasyni trommur, Einari Rúnarssyni hljómborð og Róberti Þórhallssyni bassa. Á laugardagskvöld rokkar Rás 2 um landið frá Græna hattinum og bíður að þessu sinni uppá: Dr. Spock, sem sló svo eftirminnilega í gegn í laugardagslögunum í vetur, Bennys Cresbos Gang, eina efnilegastu hljómsveit landsins og Sign, sem leika að eigin sögn "melódískt töffararokk."
Helga Bryndís Magnúsdóttir og Aladar Rácz flytja rhapsódíur úr ýmsum áttum fjórhent á píanó, á föstudagsfreistingum í Ketilhúsinu í hádeginu á morgun föstudag. Það er Tónlistarfélag Akureyrar í samstarfi við Karólínu Restaurant sem stendur fyrir þessari dagskrá. Aðgangseyrir er kr. 1.500 en eldri borgarar greiða kr. 1.250.
Það verður líf og fjör í Glerárkirkju laugardaginn 5. apríl nk. kl. 17.00 en þá fer þar fram kóramót undir yfirskriftinni; "Hæ,tröllum á meðan við tórum." Þrír kórar taka þátt í mótinu, Grundartangakórinn, undir stjórn Atla Guðlaugssonar, Karlakórinn Hreimur frá Húsavík, undir stjórn Aladár Rácz og Karlakór Akureyrar - Geysir, undir stjórn Valmar Valjaots. Í boði verður fjölbreytt söngdagskrá úr öllum áttum. Kórarnir flytja hver sitt prógram en eftir það sameina þeir krafta sína í sannkölluðum stórverkum úr sögu íslensks karlakórasöngs. Aðgangseyrir er 1.500 krónur.
Magga Steingríms opnar sýningu á verkum sínum í Deiglunni laugardaginn 5. apríl kl. 14.00. Magga hefur undanfarið unnið að gerð þrívíðra myndverka sem hún vinnur úr þæfðri íslenskri ull og sýnir nú afrakstur þeirrar vinnu. Sýningin stendur til sunnudagsins 13.april og er opin alla dagana frá 14.00 - 17.00. Allir velkomnir. Guðmundur R. Lúðvíksson opnar sýninguna "Hreppsómagi og vindhanar" á Café Karólínu laugardaginn 5. apríl 2008.
Guðmundur hefur sett upp fjölmargar sýningar á síðustu árum og er nýkominn frá Rotterdam þar sem hann tók þátt í samsýningu. "Verkið Hreppsómagi og vindhanar er unnið þannig að ég mun leggja af stað kl. 05.00 föstudagsnótt frá Njarðvíkum til Akureyrar. Kílómetramælir bílsins verður stilltur á núll við upphaf ferðar. Við hver hreppamörk alla leið til Akureyrar verður lofti blásið í poka, og lokað þétt fyrir þá. Hver poki er merktur með km sem eftir eru á áfangastað. Ljósmynd er tekin af gjörningnum og tilheyrir hverjum poka. Núll pokinn verður stærri en allir hinir pokarnir. Einnig verða þrjú verk sem unnin eru með girni og eru þrívíð," segir Guðmundur.
Þriðji viðburðinn í tengslum við SKÖPUN - tilraunastofu leikarans Kristjáns Ingimarssonar, verður í Ketilhúsinu á Akureyri laugardaginn 5. apríl kl. 20.30. Hér er um að ræða viðburð sem kemur áhofendum skemmtilega á óvart. Hvað er það sem gerir það að verkum að eitthvað nýtt verður til? Eitthvað sem enginn veit hvað er en allir eru sammála um að þetta eitthvað er einstaklega hrífandi, skemmtilegt, óhugnanlegt eða upplífgandi, með athygli sinni og undrun gefa því líf. Í tilefni af byrjun á vinnslu nýrrar sólóleiksýningar sem ber vinnuheitið SKÖPUN er dyrunum hrundið upp til viðburðar sem vonandi kollvarpar öllum hugmyndum um heilbrigða skynsemi, segir í fréttatilkynningu. Kristján nýtur aðstoðar myndlistamannsins Þórarins Blöndal við uppsetninguna í Ketilhúsinu. Gestir eru beðnir um að taka með sér myndavél með flassi. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.