Sævar Ingi Jónsson deildarstjóri umferðareftirlits Vegagerðarinnar segir það alrangt hjá Guðmundi Gunnarssyni framkvæmdastjóra GV grafa,
sem fram kom á vef Vikudags, að Miðhúsabraut hafi verið lokað að kröfu Vegagerðarinnar.
Eins fram kom á vikudagur.is lokaði lögreglan á Akureyri nýja vegarkaflanum á Miðhúsabraut upp úr hádegi á þriðjudag. GV
gröfur eru að vinna við frágang á þessum kafla og sagði Guðmundur framkvæmdastjóri að Sævari Ingi starfsmaður Vegagerðarinnar
hafi ekki getað sætt sig við umferð um götuna þar sem GV gröfur notuðu svokallaða búkollur (stóra efnisflutningabíla) við
verkið. Sævar Ingi sagðist hafa, sem umferðareftirlitsmaður, bent lögreglunni á að með því að nota búkollurnar væri
fyrirtækið hugsanlega að brjóta þrenn lög. Hann sagðist jafnframt hafa haft samband við Akureyrarbæ og spurst fyrir um hvort GV gröfur hafi haft
heimild til að keyra um götuna á þessum bílum, svo hafi ekki verið.
Sævar Ingi sagði að þessi tæki væru allt of þung og að þau uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru um notkun í almennri
umferð. Vilji menn nota þau við framkvæmdir þurfi það að gerast á lokuðum svæðum. Þá sagði Sævar Ingi að
Vegagerðin leyfði ekki notkun þessara tækja á sínum vegum nema í neðstu burðarlögum og þá á lokuðum svæðum.