Menntamálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu HA

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að 4. áfanga nýbygginga Háskólans á Akureyri við Sólborg nú í morgun að viðstöddu fjölmenni. Nemendur, starfsfólk og aðrir gestir héldu á kaðli sem myndaði útlínur húsanna, á meðan ráðherra tók skóflustunguna. Nýbyggingin verður um 2.300 m2 að stærð og þar verða m.a. hátíðarsalur, fyrirlestrarsalir, aðalinngangur skólans og smærri kennslurými Menntamálaráðherra ætlar ekki að láta þar við sitja í ferð sinni til Akureyrar, því nú í hádeginu verður hún viðstödd setningu RES Orkuskólans.

Menntamálaráðuneytið ákvað að höfðu samráði við bygginganefnd Háskólans á Akureyri, að taka tilboði frá Tréverki ehf. í byggingu 4. áfanga HA. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næstu mánuðum og að verkinu ljúki sumarið 2010. Tilboð Tréverks hljóðaði upp á um 620 milljónir króna, eða 120% af kostnaðaráætlun. Nýbyggingin er mikil viðbót fyrir Háskólann og liður í því að koma starfsemi skólans á eitt og sama svæðið.

Þrjátíu nemendur frá 10 löndum hefja nám við RES Orkuskóla en flestir koma þeir frá Póllandi. Allir nemendur hafar góðan og faglegan undirbúning í verkfræði og raunvísindum og flestir eru komnir í meistaranám. Kennsla hefst af fullum krafti á mánudag.

Nýjast