Margir biðu eftir flugi

Innanlandsflug hófst á ný í morgun en allt flug innanlands féll niður í gær vegna veðurs og því biðu margir eftir því að komast á milli áfangastaða. Það var handagangur í öskjunni á Akureyrarflugvelli í morgun og þar beið fjöldi fólks eftir því að komast til Reykavíkur. Fólk beið í röð eftir að komast að afgreiðsluborðinu og náði hún langt út fyrir flugstöðina. Þótt innanlandsflug sé hafið á ný er víða ófærð og óveður á vegum landsins, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir, snjóþekja og á Norðausturhorninu er hálka, hálkublettir og óveður og ekkert ferðaveður. Þæfingsfærð og óveður er á Vopnafjarðarheiði. Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og skafrenningur. Ófært er yfir Öxi og á Breiðdalsheiði. Á Suðurlandi er víða hálka og hálkublettir. Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum. Á Vesturlandi er víða hálka og hálkublettir.  Á Vestfjörðum er víða hálka, hálkublettir eða snjóþekja , Ófært er um Klettsháls en mokstur stendur yfir. Á Steingrímsfjarðarheiði er hálka og Eyrarfjall er ófært.

Nýjast