Rólegheit einkenna fasteignamarkaðinn á Akureyri líkt og víðast hvar annars staðar. Að undanförnu hafa selst um 25 íbúðir
í mánuði en voru á bilinu 60 til 70 á svipuðum tíma í fyrra.
Menn eru þó enn bjartsýnir á að niðursveifla verði ekki mikil á þessum vettvangi á Akureyri en þó er útlit fyrir að
fasteignasala verði með minna móti á árinu miðað við nokkur undanfarin ár. Björn Guðmundsson hjá Fasteignasölunni Byggð segir
málið einfalt, salan sé mun minni í ár en verið hafi síðastliðin ár, "og mér sýnst útlitið þannig að
það verði áfram rólegt yfir þessu," segir hann. Lausnina telur hann m.a. fólgna í því að
Íbúðarlánasjóður hefji á ný á veita 90% lán, "það myndi bylta þessum markaði hér á skömmum
tíma," segir Björn. Hann nefnir að áhugi fyrir fasteignakaupum sé mikill, margir séu að skoða og velta eignum fyrir sér, en haldi að
sér höndum á meðan óvissa ríki í efnahagsmálum.
Unnar Sveinn Helgason hjá Fasteignasölunni Domus tekur í sama streng. Hann nefnir að margir bíði eftir því að stimpilgjöld verði
afnumin svo sem ríkisstjórn hafi boðað. Hvetur hann kaupendur til að skipta við Íbúðarlánasjóð, þar séu
hámarkslán nú 18 milljónir en sú upphæð henti betur á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu. Unnar Sveinn segir að
ekki þurfi mikið til svo markaðurinn taki við sér, margt sé jákvætt framundan, svo sem bygging aflþynnuverksmiðju og gerð jarðganga
í kringum Akureyri. "Það þarf ekki mikið til að keðjuverkun fari af stað og það lifni yfir markaðnum," segir hann.