Magnús Geir Þórðarsson verður næsti leikhússtjóri Borgarleikhússins. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur ákvað
þetta á fundi fyrr í dag. Magnús Geir, sem verið hefur leikhússtjóri á Akureyri, tekur við af Guðjóni Pedersen, sem lætur af
störfum í sumar. Hann var valinn úr hópi sjö umsækjenda um stöðuna. Magnús Geir hefur verið leikhússtjóri LA undanfarin
ár og lyft Grettistaki í leiklistarlífinu á Akureyri. Leikhúsgestum hefur fjölgað gríðarlega í leikhússstjóratíð
Magnúsar Geirs og þá hefur orðið algjör viðsnúningur í rekstri félagsins undir hans stjórn.