Lystigarðurinn á Akureyri verður opnaður almenningi sunnudaginn 1. júní nk. og verður opinn út september. Garðurinn verður opinn á virkum
dögum frá kl. 08-22 og um helgar frá kl. 09-22.
Lystigarðurinn, sem er staðsettur í suðurbrekkunni sunnan við Menntaskólann, er rómaður fyrir fegurð og mikinn fjölda plöntutegunda.
Björgvin Steindórsson garðyrkjufræðingur og forstöðumaður Lystigarðsins segir að mikill fjöldi fólks leggi leið sína í
garðinn ár hvert og séu útlendingar heldur fjölmennari en Íslendingar. "Við höfum verið að skjóta á að hingað komi á
annað hundrað þúsund manns á hverju sumri," segir Björgvin og hann býst við svipuðum fjölda gesta í ár. Aldarafmæli
garðsins verður haldið árið 2012 og þá er stefnan að kaffihús verði komið á laggirnar í garðinum fyrir gesti og gangandi.
Kaffihúsið var á fjárhagsáætluninni fyrir sumarið en hefur verið slegið af og stefnan verið sett að koma því upp að minnsta
kosti fyrir aldarafmælið.