Líflegt tónleikahald á Græna hattinum

Hin alræmda ræflarokkshljómsveit Helgi og hljóðfæraleikararnir mun halda sérstaka aðventutónleika á Græna hattinum föstudagskvöldið 14. desember. Á dagskránni verða lög af nýjustu plötunni, Veislan á Grund, í bland við gamla slagara. Daginn eftir, laugardagskvöldið 15. desember, stígur hljómsveitin Hellvar á svið á Græna hattinum. Á dagskrá verða lög af frumrauninni Bat Out of Hellvar sem kom út fyrir skemmstu, í bland við annað efni.

Söngvari og forsprakki Helga og hljóðfæraleikaranna, Helgi Þórsson, á von á líflegum tónleikum annað kvöld. „Við reiknum með að hin sígilda jólaplata Ég veit hvað þú gerðir um síðustu jól verði leikin niður í öreindir. Því má reikna fastlega með smellum á borð við „Alkar falla", „Barist er í Betlehem" og „Skreytum tréð í einum grænum" á konsertinum."

Heiða söngkona Hellvars sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem Hellvar spilaði á Akureyri. Meðlimir sveitarinnar væru því spenntir fyrir ferðinni og hún lofar góðri stemningu á tónleikunum. „Tónlistarlífið er líka í blóma á Akureyri og Græni hatturinn skemmtilegur staður að spila á," bætir hún við. „Við erum líka nýbúin að halda útgáfutónleika sem heppnuðust alveg glimrandi vel." Báðir tónleikarnir hefjast kl. 22.00 en húsið verður opnað klukkutíma fyrr.

Nýjast