LA hlýtur 11 tilnefningar til Íslensku leiklistarverðlaunanna

Nú liggja fyrir niðurstöður um tilnefningar til Íslensku leiklistarverðlaunanna, Grímunnar leikárið 2007-2008. Leikfélag Akureyrar hlýtur 11 tilnefningar að þessu sinni eða fleiri en nokkru sinni fyrr. Að auki er líklegt að LA komi sterkt út úr vali á áhorfendasýningu ársins enda hafa sýningar leikhússins notið mikilla vinsælda í vetur - og meiri vinsælda en flestar aðrar sýningar leikársins á landinu. Sem kunnugt er er leikárið sem nú er að líða það aðsóknarmesta í sögu Leikfélags Akureyrar. Rúmlega 40.000 gestir sáu sýningar félagsins á Akureyri sem er 40% aukning frá metárinu í fyrra.

Dubbeldusch er tilnefnd sem sýning ársins, Óvitar sem barnaleiksýning ársins, Björn Hlynur sem leikskáld ársins fyrir Dubbeldusch, Þröstur Leó sem leikari ársins fyrir Ökutíma, Hilmar Jónsson sem leikari ársins fyrir Dubbeldusch, Harpa Arnardóttir sem leikkona ársins fyrir Dubbeldusch, Lay Low fyrir tónlist ársins fyrir Ökutíma, Frank Hall fyrir tónlist ársins í Dubbeldusch, Lay Low sem söngkona ársins fyrir Ökutíma, Aðalsteinn fyrir lýsingu ársins í Frelsaranum og Filippía Elísdóttir fyrir búninga ársins í Ökutímum. Val á sýningu ársins að mati áhorfenda er framundan og spennandi verður að sjá hvort sýningar LA í vetur komi jafn vel út og síðustu misseri en Óliver!, Fullkomið brúðkaup og Litla hryllingsbúðin voru sigursæl.  Óvitar og Fló á skinni eru meðal allra vinsælustu sýninga ársins á Íslandi en hinar sýningarnar tvær, Ökutímar og Dubbeldusch hlutu einnig afburða aðsókn. Gríman verður afhent þann 13. júní næstkomandi.

Nýr leikhússtjóri, María Sigurðardóttir undirbýr nú nýtt og glæsilegt leikár, það fyrsta undir hennar stjórn. Síðustu gestasýningar leikársins eru framundan, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast