KR lagði Þór í skemmtilegum leik

Þór og KR mættust í Íþróttahúsi Síðuskóla í kvöld í Iceland Express deild karla í körfubolta. KR-ingar eru ríkjandi Íslandsmeistarar og var því búist við erfiðum leik hjá Þór. Enda kom það á daginn þar sem KR-ingar reyndust of stór biti fyrir nýliða Þórs og sigruðu 100-91. Fyrsti leikhluti var mjög jafn og var sóknarleikur í fyrirrúmi hjá báðum liðum, þó svo að hittnin hafi ekki alveg fylgt liprum tilþrifum við að búa til færin. Cederic Isom spilaði frábærlega í leikhlutanum fyrir Þór eins og reyndar í öllum leiknum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 20-19 fyrir Þór.

Annar leikhluti einkenndist að skelfilegri hittni Þórsara en jafnframt frábærum varnarleik hjá liðinu sem kom í veg fyrir að KR-ingar næðu stóru forskoti. Með ólíkindum var hve illa Þórsurum gekk að hitta og skorðu þeir einungis 15 stig í leikhlutanum og staðan orðin 43-35 fyrir KR þegar flautað var til hálfleiks.

Þriðji leikhluti var mjög góður hjá Þór og nú hafði leikurinn aftur snúist til sóknarleiks í stað hinna sterku varna sem einkenndu annan leikhluta. Bæði lið spiluðu svæðisvörn megnið af leikhlutanum en mikil villuvandræði settu svip sinn á leikinn og menn þorðu ekki að taka mikla áhættur í varnarleiknum. Staðan að loknum þriðja leihluta var 62-67.

KR-ingar voru með ólíkindum heppnir í fyrstu sókn sinni í fjórða leikhluta því hún skilaði þeim hvorki fleiri né færri en 5 stigum ásamt því að Luka Marholt, lykilmaður hjá Þór, fékk á sig tæknivillu, sú villa var jafnframt hans fimmta og var hann því útilokaður úr leiknum.

Alltaf var á brattan fyrir Þór að sækja það sem eftir var leikhlutans en þeir reyndu þó alveg til loka. Hins vegar virtist svo vera að í hvert skipti sem Þór náði að skora þá svaraði KR jafn óðum og hleyptu Þórsurum hvergi nærri.

Fór svo að lokum að sterkt lið KR sannaði styrkleika sinn en Þórsarar geta að mörgu leyti verið ánægðir með sinn leik og þá staðreynd að þeir voru aldrei lengra en í seilingarfjarlægð frá einu sterkasta liði landsins.

Cederic Isom var langbesti leikmaður Þórs í leiknum, en einnig átti Óðinn Árnason ágætis leik.

Nýjast