Ingvar segir að salan það sem af er sumri sé meiri nú en á sama tíma í fyrra. "Maímánuður var reyndar í erfiðari kantinum en júní var feykilega góður og salan meiri en í fyrra. Það hefur verið töluverð söluaukning á árinu og hlutirnir verið að ganga eins og við lögðum upp með í byrjun árs. Ingvar segir grillvertíðina fyrir norðan hafa verið dræma en að sama skapi góða fyrir sunnan. "Við sjáum það að grillvertíðin hefur ekki náð neinu flugi á norðanverðu landinu en á suðurlandinu hefur veður verið gott og grillkjötssalan því verið mjög góð, þetta tvennt hangir saman, veðrátta og grillkjötssala. Ingvar segir söluhorfur vera góðar. "Það eru fínar söluhorfur, júlí hefur farið vel af stað svo komum við inn í ágúst og haustið og það horfir ágætlega, sauðfjársláturtíðin kemur með haustinu og þá munum við leggja mikla áherslu á að selja nýtt lambakjöt, " segir Ingvar.
Eiður Gunnlaugsson framkvæmdarstjóri Kjarnafæðis segir að fólk á þeim bænum megi vera þakklát með söluna sem af er sumri. "Við erum bara þakklát, salan er mjög svipuð og hún var í fyrra." Þá segir hann erfitt að segja til um hvernig restin af sumrinu muni ganga vegna versnandi ástands efnhagslífsins. "Maður veit aldrei en fólk þarf nú alltaf að borða."
Kjarnafæði hefur verið að herja vel á pylsumarkaðinn í sumar og bryddað upp á ýmsum nýjungum og segir Eiður að stóraukning hafi verið á sölum á pylsum það sem af er sumri. "Það hefur gengið mjög vel og mikil aukning á þeim bænum, heildarpylsusalan á landsvísu hefur gengið svakalega vel og við erum með nokkuð margar pylsutegundir og eina nýja, Mexicano, sem er mjög sterk og skemmtileg pylsa. Ein vinsælasta tegundin hjá okkur eru svokallaðar heimilispylsur sem eiga fyrirmynd sína í Danmörku. Þær eru lagaðar nákvæmlega eins og pylsurnar hér í gamla daga og það er fleiri hundruð prósenta aukning á þeim," segir Eiður.