Keilan, fyrsti keilusalurinn á Akureyri, var opnaður í dag. Í salnum eru átta brautir og hafa sérhæfðir starfsmenn frá Bandaríkjunum
unnið að uppsetningu tækja síðustu vikur. Keilan Akureyri og Kaffi Jónsson eru rekin samhliða af sömu eigendum í svokölluðu glerhúsi
við Hafnarstræti. Aðaleigendur eru þau Dagný Ingólfsdóttir og Þorgeir Jónsson. Þau hafa rekið kaffihús í hluta
hússins undanfarin ár en ákváðu síðan að kaupa allt húsið, sem er um 1000 fermetrar að stærð, ráðast í
stækkun kaffihússins og uppsetningu keilusalar.
Framkvæmdir hafa staðið síðan snemma hausts en kaffihúsið Kaffi Jónsson var opnað skömmu fyrir jól og nú er húsið
fullbúið í nýju hlutverki með opnun Keilunnar. Þorgeir sagðist hafa orðið var við það á framkvæmdatímanum að
bæjarbúar og reyndar íbúar víðar af Norður- og Austurlandi hafi beðið spenntir eftir því að komast í keilu. Nú er
stundin runnin upp og hann er því bjartsýnn á framhaldið, enda hafa margir pantað sér tíma í keilu.