KEA og Sparisjóðir á svæðinu gera samning um útgáfu KEA greiðslukorts

KEA og allir Sparisjóðirnir sjö sem starfa á félagssvæði KEA undirrituðu nú í hádeginu samning um útgáfu KEA greiðslukorts, debetkorts og kreditkorts. Kortin hafa útlit KEA kortsins en eru um leið greiðslumiðill. Auk þess sem þetta hefur í för með sér mikil þægindi fyrir félagsmenn veita Sparisjóðirnir sérstök kjör til þeirra sem nýta sér kortaútgáfuna. KEA-kortið, sem er afsláttar- og fríðindakort, verður áfram í fullu gildi. Um þessar mundir eru tvö ár frá útgáfu kortsins og á þeim tíma hefur félagsmönnum KEA fjölgað um sjö þúsund, eru nú um 14.500 og hefur notkun kortsins farið fram úr björtustu vonum. Markmiðið með útgáfu KEA greiðslukortsins er að auka ávinning félagsmanna KEA og viðskiptavina Sparisjóðanna og ýta undir verslun í heimabyggð. Ef félagsmaður KEA tekur bæði KEA debet- og kreditkort fær hann aukaávinning. Ef félagsmaður KEA tekur bæði depet- og kreditkort og gengur í Vildarþjónustu Sparisjóðanna, fær hann enn meiri ávinning. Þetta eru einu debet- og kreditkortin á markaðnum sem veita afslátt við kaup á vöru eða þjónustu, með tilliti til fjölda samstarfsaðila og að kortið er í boði fyrir alla félagsmenn KEA. Sparisjóðirnir sjö sem koma að nýja KEA greiðslukortinu eru: Sparisjóður Norðlendinga, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Ólafsfjarðar, Sparisjóður Siglufjarðar, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Þórshafnar og Langaness.

Nýjast