Í ljósi góðrar afkomu á síðasta ári, hefur stjórn KEA ákveðið að veita styrki til nokkurra verkefna. Þetta kom fram
í máli Hannesar Karlssonar stjórnarformanns á aðalfundi KEA í dag. Stjórn félagsins samþykkti allt að 10 milljónir króna
til kaupa á hágæða flygli fyrir Hof menningarhús og allt að 10 milljónir króna til kaupa á nýju ómskoðunartæki fyrir
FSA. Þá samþykkti stjórnin allt að 2,5 milljónir kórna til Krabbameinsfélags Akureyrar og Eyjafjarðar, sem m.a. fer í að greiða
niður gistikostnað fyrir sjúklinga og sömu upphæð til endurnýjunar á tækjum á endurhæfingastöð fyrir hjarta- og
lungnasjúklinga á Bjargi. Ein breyting varð á stjórn KEA, Benedikt Sigurðarson gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Njáll Trausti
Friðbertsson kosinn í stjórn í hans stað.
Benedikt flutti ítarlega kveðjuræðu á aðlfundinum í dag og gagnrýndi þá Hannes Karlsson stjórnarformann og Halldór
Jóhannsson framkvæmdastjóra nokkuð harkalega. Alls var kosið um fjögur sæti í stjórn KEA. Kjörtímabili þeirra Benedikts
Sigurðarsonar, Björns Friðþjófssonar, Hannesar Karlssonar og Úlfhildar Rögnvaldsdóttur var lokið en þau þrjú
síðastöldu gáfu kost á sér til endurkjörs og náðu öll sæti í stjórn áfram. Til viðbótar
gáfu kost á sér í stjórnina Ásgeir Helgi Jóhannsson, Birgir Guðmundsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigmundur Ófeigsson og
Sigurður Eiríksson. Alls voru greidd atkvæði 102 og fengu þau Björn Friðþjófsson og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir flest
atkvæði eða 87, Hannes Karlsson fékk 64 atkvæði og Njáll Trausti 60.