Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var í gær afhent fyrsta eintakið af uppskriftabæklingi sem
Landssamband kartöflubænda gefur út í tilefni af ári kartöflunnar. Fjölmenni var á veitingastaðnum Friðriki V á Akureyri
þar sem bæklingurinn var kynntur og gestir fengu að smakka á 10 kartöfluréttum sem finna má uppskriftir af í bæklingnum.
Bæklingurinn mun liggja frammi í matvöruverslunum án endurgjalds fyrir þá sem vilja kynnast nýjum hliðum á kartöflunni. Í
bæklingnum eru uppskriftir af saltfiskrétti, humarsúpu, gerbrauði, kartöflugratínu, fjallagrasabrauði, kartöfluböku, kanilköku,
súkkulaðiköku, skyrköku og konfekti.
„Það má segja að með þessum uppskriftum viljum við kippa kartöflunni inn í 21. öldina. Það kunna allir að sjóða og
baka, en færri hafa kynnst kartöflubrauði og súkkulaðikökum sem gerðar eru úr kartöflum" segir Bergvin Jóhannsson, formaður Landssambands
kartöflubænda.
„Kartaflan á sér tryggan sess í eldhúsum landsmanna enda eru rétt 250 ár síðan kartöflurækt hófst hér
á landi" segir Sigríður Bergvinsdóttir sem sér um útgáfu bæklingsins og hefur staðið í ströngu við að búa til
uppskriftir og elda kartöflurétti fyrir verkefnið. „Við finnum þó að neytendur vilja prófa eitthvað nýtt og þess vegna erum
við að gefa út nýstárlegan bækling með nýjum uppskriftum og fróðleik. Nokkrir einstaklingar leggja okkur lið með skemmtilegum
frásögnum sem tengjast katöflunni, og það er öruggt að flestir ættu að finna sinn uppáhalds kartöflurétt í bæklingnum"
segir Sigríður ennfremur.