Karlmaður á Akureyri vann 54 milljónir króna

Karlmaður á Akureyri datt í lukkupottinn þegar dregið var í Víkingalottóinu í vikunni en hann fékk bónuspottinn, sem ekki hafði gengið út  í margar vikur og hljóðaði vinningurinn upp á 54 milljónir króna.  Enginn var með allar tölurnar réttar í útdrætti vikunnar og er 1. vinningur því tvöfaldur næst. Akureyringar hafa verið einstaklega heppnir í lottóinu á árinu og unnið stóra vinninga samtals að upphæð rúmar 190 milljónir króna.

Í byrjun október hreppti Akureyringur fyrsta vinning í Víkingalottóinu, samtals 105 miljónir króna. Fyrir hálfum mánuði deildu tveir með sér fyrsta vinningnum í laugardagslottóinu og var annar miðinn keyptur á Akureyri. Vinningshafinn, sem er kona, hafði verið með miðann í veskinu sínu og ekki látið verða að því að skoða hann fyrr en hún heyrði umfjöllum um stórvinninga sem komið hafa á Akureyri á árinu. Í apríl kom 10 miljóna króna vinningur á miða sem keyptur var á Akureyri. Enginn var með allar tölurnar réttar í laugardagslottóinu í síðustu viku og er fyrsti vinningur því tvöfaldur á morgun.

Nýjast