Kampavínspíramídinn fjarlægður á næstu dögum

Kampavínspíramídinn, listaverk Ásmundar Ásmundssonar, sem sett var upp á svæði við Umferðarmiðstöðina á Akureyri og var hluti sýningarinnar BÆ BÆ ÍSLAND verður tekinn niður á næstu dögum. Sýningunni lauk fyrir þremur vikum, en verkið stendur enn. Skiptar skoðanir eru um ágæti þess meðal bæjarbúa en einhverjir hafa amast við því. Hannes Sigurðsson forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri segir að vegna anna þeirra sem flytja ætla verkið á brott hafi það dregist dálítið en það verði fjarlægt á næstu dögum. "Það er alltaf gaman þegar tekst að hrista af og til upp í hlutunum og það hefur tekist með þessu verki, þó ekki sé nema fyrir það að fólk tuðar yfir að það standi enn," segir hann. Kampavínspíramídann segir hann eins konar hestaskál útþenslunnar í íslenskum byggingariðnaði og hann sé viss mælistika á fegurðarskyn landans, þá sé hann áminning til áhorfenda um hvað sé fagurfræði en að mati Hannesar hefur á undanförnum árum verið byggður fjöldi húsa með þvílík hagræðingar- og arðsemissjónarmið að leiðarljósi að sjónmengunin er nánast komin á banvænt stig.

"Þegar opinbert rými er niðurlægt rofnar samfélagslímið þannig að útkoman verður merkingarlaust, malbikað einskismannsland sem aðeins er hægt að nota fyrir bíla og til að hrækja út úr sér tyggjóinu. Þetta landslag ýtir undir áhyggjur, firringu, einangrun, tilgangsleysi og þunglyndi. Og svo furðar fólk sig á því af hverju þjóðin er farin að bryðja svona mikið prósak," segir Hannes. Þá megi líkja verkinu við uppbyggingu kapítalískra samfélaga; þeir sem efst standa fá mest og hjá þeim tæmast ekki glösin, en þeir sem neðar standa í píramídanum verði að láta sér nægja það sem lekur úr glösum hinna háttsettari. Loks sé í þessu samhengi mikilvægt að muna eftir að velta fyrir sér þeirri staðreynd að iðnaður nútímans sé að megninu til byggingariðnaður og hann snúist um steinsteypu og olíu, Eins og í raun flest annað í okkar samfélagi, án olíunnar væri hreinlega enginn nútími.

Nýjast