Jóhannes í Bónus aðstoðaði í flugeldasölu Súlna

Súlur björgunarsveitin á Akureyri fékk góðan liðsstyrk í flugeldasölu sveitarinnar fyrr í dag, er Jóhannes Jónsson í Bónus mætti í höfuðstöðvar Súlna við Hjalteyrargötu og tók þátt í flugeldasölunni um stund. Aðspurður um hvort hann væri góður sölumaður sagði Jóhannes að sér hafi gengið ágætlega fram að þessu. Enda kom það á daginn að Jóhannes reyndist öflugur sölumaður og var fljótur að uppfylla óskir kaupenda um öfluga og skemmtilega flugelda, enda úrvalið með allra mesta móti. Flugeldasala Súlna, sem hófst í gær, hefur farið vel af stað, að sögn Skúla Árnasonar formanns sveitarinnar en stærstu dagarnir eru þó eftir. Í dag og á morgun er flugeldasala Súlna opin frá kl. 10-22 og á gamlársdag er opið frá kl. 9-16. Flugelda bjögunarsveitanna á Íslandi er þeirra helsta tekjulind ár hvert og því skiptir miklu máli að vel takist til.

Nýjast