Hann bætti við: „ Eitt er þó nýtt í þessum málum hjá Reykjavíkurborg og ÍBR, borgin styrkir félögin með ákveðinni peningaupphæð vegna íþróttafulltrúa en ekki vegna 4-5 starfsmanna eins og menn kannski héldu hér." Kristinn segir aðspurður að Akureyri standi fyllilega jafnfætis sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og vel það hvað varði styrki til skrifstofu, sérstaklega ef miðað er við fjölda iðkenda hjá félögum.
"Ljóst er að það sem er nýtt í þessu eru þessir styrkir hjá Reykjavíkurborg til stóru félaganna vegna íþróttafulltrúa, sem við erum ekki með," sagði Kristinn. Hann kvaðst ekki geta sagt til um hvort breytingar yrðu hjá Akureyrarbæ í ljósi þessa, slíkt hefði ekki verið rætt enn sem komið er í það minnsta. "Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er ljóst að Akureyrarbær stendur sig afar vel hvað varðar framlög í málaflokkinn og er þar fremst sveitarfélaga landsins," sagði Kristinn. Hann bætti við að alltaf væru skiptar skoðanir um forgangsröðun og skiptingu fjármagns, sem eðlilegt er. Kristinn sagði að á undanförnum árum hafi mikið fjármagn farið í uppbyggingu íþróttamannvirkja og framhald verði á því á næstu árum samkvæmt samningum. Því sé umtalsvert fé bundið vegna reksturs þeirra og þar af leiðandi geti verið erfiðara að auka fjármagn í innra starf félaganna.