13. desember, 2007 - 23:14
Mikill kuldi setti mark sitt á annars vel heppnað Desembermót Sundfélagsins Óðins í Sundlaug Akureyrar um síðustu helgi. Sem dæmi um kuldann má nefna að oft og tíðum sáust keppendur varla ofan í lauginni fyrir gufustróknum sem stóð upp úr henni vegna kuldans. Fyrir utan þetta þarf svo vart að taka það fram að varla er boðlegt fyrir áhorfendur að standa löngum stundum úti í kulda eins og var um helgina. Halldór Arinbjarnarson stjórnarmaður í Óðni segir að svona aðstæður séu ekki boðlegar hinum efnilegu sundmönnum á Akureyri. „Hrópandi ósamræmi er orðið á milli þeirrar aðstöðu sem sundmenn norðan og sunnan heiða búa við sem kom berlega í ljós þessa daga. Er sárt að þurfa að bjóða sundmönnum sem eru í keppni við jafnaldra sína á suðvesturhorninu um sæti í landsliðsverkefnum upp á aðstæður sem þessar," sagði Halldór. Hann bætti því einnig við að nær ómögulegt sé til dæmis að skapa alvöru umgjörð um mót við svona aðstæður í útilaug yfir vetrartímann en sundtímabilið stendur frá ágúst og fram í júní ár hvert og því er þarna um að ræða meginpart tímabilsins. Aðgerða sé þörf ætli Akureyringar sér að vera á kortinu í sundheiminum.