Íbúatalan þokast upp á við á Svalbarðsströnd

Helsta skýringin á því að íbúatala Svalbarðsstrandarhrepps þokast heldur upp á við segir Árni Bjarnason sveitarstjóri vera þá að fólk frá Akureyri flytur sig yfir Pollinn og kemur sér fyrir í Vaðlaheiðinni handan bæjarins. Þó nokkuð hefur verið um byggingaframkvæmdir í sveitarfélaginu undanfarin misseri. Heldur hefur dregið úr framkvæmdum segir Árni, en stór hluti þeirra lóða sem til sölu hafa verið eru farnar, „en svo virðist sem menn bíði átekta, dragi það aðeins að hefja byggingaframkvæmdir og eflaust ætla sé einhverjir sem eiga hér lóðir að selja þær aftur." Unnið er að endurskoðun aðalskipulags fyrir sveitarfélagið og er kapp lagt á að ljúka þeirri vinnu. „Síðan þurfum við að huga að deiliskipulagi, t.d. fyrir Svalbarðseyrina, en þar er hugmynd að stækka byggð," segir Árni. Þar á að leggja áherslu á miðju eða þyngdarpunkt sveitarfélagins, enda grunnskóli þar og leikskóli. Þá segir Árni að Kjarnafæði, sem er með starfsemi sína á Svalbarðseyri, hafi kynnt áform um stækkun fyrirtækisins. „Starfsemin hefur vaxið mjög mikið og tækjavæðst og þarf nú aukið rými. Við vinnum nú að undirbúningi þess," segir Árni. „Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir byggðarlag eins og okkar að hafa fyrirtæki af þessari stærðargráðu, fyrirtæki sem vex og dafnar og mikil drift er í."

Nýjast