Í dag voru sveitarstjórn Þingeyjarsveitar afhentar undirskriftir 238 kosningabærra íbúa í sveitarfélaginu, þar sem óskað er
eftir því að sveitarfélögin Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit verði ekki sameinuð, nema íbúum Þingeyjarsveitar gefist kostur
á að kjósa um það í almennum kosningum. Kosningar um sameiningu Aðaldælahrepps, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar fóru fram 17.
nóvember sl. Í þeim kosningum greiddu 422 íbúar í Þingeyjarsveit atkvæði, já sögðu 215, eða 50,95% en nei sögðu
207, eða 49,05%.
Mývetningar felldu þá sameiningu en nú liggur fyrir tillaga um að sameina Aðaldælahrepp og Þingeyjarsveit án þess að um það
verði kosið sérstaklega. Þeir sem að undirskriftalistunum standa telja að sú sameining sem nú er um rætt sé annars konar en hin fyrri og
því eindregið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að fá fram skýran vilja íbúanna í almennri kosningu. Það er
von þeirra sem skrifað hafa nöfn sín á listana að sveitarstjórnin íhugi vel það sjónarmið sem þar er sett fram og leitist
við að ná sanngjarnri niðurstöðu í þessu erfiða máli, sem m.a. hefur kostað meirihlutaskipti í stjórn sveitarfélagsins,
segir í fréttatilkynningu. Málið er á dagskrá sveitarstjórnarfundar á morgun, fimmtudaginn 6. mars.