Í kjölfar Kveiks - Að gefnu tilefni

Reginn Unason formaður Félags Íslenskra heilsunuddara
Reginn Unason formaður Félags Íslenskra heilsunuddara

Í ljósi þáttar Kveiks varðandi snyrtistofur þá ætla ég að fá að koma með nokkra punkta til að bæta við þetta mál.

Eins og komið var inn á í þættinum þá þarf að hafa meistarabréf til að opna og starfrækja snyrtistofu, það kom fram grunur um að sumar stofurnar starfi undir því yfirskini að gefin hafi verið út sérleyfi, en meistarabréf hafa í sumum tilvikum reynst fölsuð.
 
Við það vaknar spurningar hjá mörgum í þjóðfélaginu hvers vegna voru starfsleyfin gefin út?
 
Ég fyrir mína parta er ekki hissa á að þessi starfsleyfi hafi verið gefin út en það er í verkahring heilbrigðiseftirlits sveitarfélagana að gefa út starfsleyfi en þau hafa ekki heimild til að krefjast gagna um menntun fólks hvorki meistarabréfa né nokkurs prófskírteins við útgáfu starfsleyfa.
 
Það er í verkahring lögreglu að hafa eftirlit með iðnaðarlögum, en lögin kveða ekki á um náið samstarf milli eftirlitsaðila við útgáfu starfsleyfa.
 
Afhverju veit ég þetta? Jú þar sem ég veit að það þarf ekkert meistarabréf eða neina sönnun neinstaðar um raun menntun til að opna nuddstofu, þar sem nudd fellur ekki undir iðnarlöggjöf né heldur undir eftirliti embættis landlæknis.
 
Ég hef sagt það áður að núverandi löggjöf um nudd á Íslandi er ónýt. Að það megi og geti hver sem er opnað, rekið og starfað á nuddstofu án þess að nokkur hafi eða vilji hafa eftirlit með því.
 
Það leiðir beinlínis til þess að auðvelda aðilum tengdum mansali og vændi að opna nuddstofur og flytja inn fólk til að starfa á þeim. En svoleiðis misbeiting á fólki er einn af aðalpuntum Kveiks í gærkvöldi og því miður eru snyrtistofur ekki einu stofurnar þar sem vinnumansal á sér stað.
 
Ég hef fengið ábendingar um stofur sem eru svo kölluð þvottahús eða þar sem verið er að hvít þvo ílla fenginn hagnað af eiturlyfjasölu.
 
Einnig vill ég benda á að hver sem er má kenna nudd á Íslandi og það eru þó nokkur dæmi um allskonar ,,nám" í nuddi allt frá 10 tíma námskeið upp í 400 tíma helgarnám og já það er engin eftirlitsstofnun sem hefur eða vill hafa eftirlit með þessu svo kallaða námi.
 
Hér á þessu landi eru viðurkenndar námsbrautir á framhaldsskólastigi til að læra heilsunudd og í lok útskriftar færðu leyfi til að kalla þig heilsunuddara. Það nám leiðir hvorki af sér lögverndað starfsheiti né löggildingu. Þar sem nudd fellur hvorki undir iðnarlöggjöf né löggildingu heilbrigðisráðherra.
 
Ef nudd væri löggilt eða lögverndað og fólk þyrfti að sýna fram á einhverja lágmarks menntunarkröfur til að geta opnað og rekið nuddstofur ásamt því að auka töluvert allt eftirlit með nuddstofum og snyrtistofum þá myndum við alla vega gera lögbrjótum erfiðara um vik.

Nýjast