Meirihluti skólanefndar bendir á í bókun að rekstur leikskólans Hólmasólar er innan ramma fjárhagsáætlunar og að gjaldskrá leikskólans er sú sama og leikskóla Akureyrarbæjar á hverjum tíma.
Fram kemur í bókun Hlyns að bókunin sé ekki lögð fram sem gagnrýni á Hjallastefnuna eða leikskólann Hólmasól heldur til að benda á þann aukna kostnað sem einkavæðing hefur í för með sér og að nú stefnir í að sá mismunur muni stóraukast á næstunni sé ekki gripið til viðeigandi ráðstafana. Að öðru leyti er bókun Hlyns er svohjóðandi.
"Nú stefnir í að leikskólinn Hólmasól verði Akureyrarbæ enn kostnaðarsamari en fyrirséð var. Samningur bæjaryfirvalda við "Hjallastefnuna ehf." er vísitölubundinn meðan aðrir leikskólar á Akureyri fá fasta upphæð árið 2008, þrátt fyrir um 12% verðbólgu. Hvert pláss á Hólmasól er nú þegar dýrara fyrir Akureyrarbæ og foreldra en pláss á öðrum leikskólum og ef fram heldur sem horfir mun Akureyrarbær greiða hlutfallslega mun hærri upphæð fyrir Hólmasól en aðra leikskóla í bænum. Það er því ljóst að einkarekstarstefna Sjálfstæðisflokks hefur enn og aftur beðið skipbrot og nú bitnar það á foreldrum barna á Akureyri og Akureyrarbæ. Þessa mismunun þarf að leiðrétta.
Fjölbreytt skólastarf er mikilvægt og Vinstrihreyfingin grænt framboð styður heilshugar frumkvæði foreldra og fjölbreytni í skólastarfi á öllum stigum. Nú þegar er kynskipting eða svokölluð Hjallastefna rekin með góðum árangri í leikskólum hjá Reykjavíkurborg og víðar á mun hagkvæmari hátt en "Hjallastefnan ehf." treystir sér til að gera. Akureyrabær mætti gjarnan beita sér fyrir enn fjölbreyttari stefnu í starfi leikskóla t.d. í samvinnu við foreldra með stefnur eins og Waldorfstefnuna, Rudolf Steiner eða Reggio Emilio svo nokkur dæmi séu nefnd. Leikskólar á Akureyri eru afar fjölbreyttir og leggja áherslu á mismunandi þætti eins og heimspeki, fjölmenningu og hreyfingu svo dæmi séu tekin. Leikskólar Akureyrar eru afar vel reknir og mannaðir hæfu og menntuðu starfsfólki og til fyrirmyndar. Metnaðarfull símenntunaráætlun þeirra liggur fyrir en því miður hefur skólanefnd Akureyrarbæjar ekki yfirliti yfir símenntunaráætlun fyrir Hólmasól og Hlíðarból sem rekin er af Hvítasunnukirkjunni með samningi við Akureyrarbæ."