Hugvit styrkir veglega tvo afburðanemendur í HA

Í morgun voru afhentir styrkir frá fyrirtækinu Hugviti til nemenda sem stunda raunvísindanám við Háskólann á Akureyri. Styrkina hlutu Ástríður Ólafsdóttir, nemandi í líftækni og Eyrún Elva Marinósdóttir, nemandi í sjávarútvegsfræði.

Fengu þær peningastyrk að upphæð 500.000 krónur hvor. Við úthlutun var litið til  árangurs þeirra í raungreinum í framhaldsskóla sem og árangurs á fyrsta misseri við viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri. Árið 2006 gerðu Hugvit hf. og Háskólinn á Akureyri með sér þriggja ára samstarfssamning sem meðal annars felur í sér að Hugvit mun á samningstímanum árlega veita veglega námsstyrki til tveggja námsmanna við skólann sem þykja hafa sýnt framúrskarandi árangur í námi.

Hugvit þróar og markaðssetur GoPro hugbúnaðarlausnir. Fyrirtækið er með starfsstöðvar  viða í Evrópu, meðal annars á Akureyri, og vill með þessu framlagi efla nám í raunvísindum við háskólann, en nægt framboð háskólamenntaðs fólks er ein af frumforsendum góðs árangurs upplýsingatæknifyrirtækja á Íslandi.

Nýjast