Hugmyndir um nýja raflínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar

Fulltrúar frá Landsneti komu á fund skipulagsnefndar Akureyrar í gær og kynntu áform fyrirtækisins um almenna styrkingu flutningskerfis raforku á Norðurlandi í tengslum við Becromal verkefnið og önnur verkefni. Sérstaklega var farið yfir hugmyndir um byggingu nýrrar línu frá Blönduvirkjun til Akureyrar, þar sem farið var yfir mögulegar línuleiðir, ferli mats á umhverfisáhrifum og tímasetningar, segir í bókun skipulagsnefndar. Eins og fram hefur komið samþykkti aðalfundur Norðurorku á dögunum ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum af getu flutningskerfis raforku og þess krafist að úr verði bætt. "Ófullnægjandi aðgengi að raforku hamlar uppbyggingu iðnaðar þar sem svo háttar. Bilanir í Sultartangastöð í vetur sýna að nauðsynlegt er að byggðalína verði styrkt hið fyrsta með hagsmuni allra landsmanna í huga. Það er álit aðalfundar Norðurorku hf. að óhjákvæmilegt sé að nú þegar verði ráðist í styrkingu á kerfi Landsnets og fjármunir til þess verks komi úr ríkissjóði. Hér er um sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna að ræða, því líta ber á flutningskerfi raforku á sama hátt og þjóðvegi, hafnir og flugvelli landsins" sagði ennfremur í ályktun aðalfundar Norðurorku.

Eins og fram hefur komið er ítalska fyrirtækið Becromal að reisa aflþynnuverksmiðju í Krossanesi, sem þarf mikla raforku. Alls verða um 90 störf í boði fyrir fólk með mismunandi bakgrunn, menntun og reynslu. Gert er ráð fyrir að allt að 30 starfsmenn verði ráðnir fyrsta kastið en þeim fer svo fjölgandi eftir því sem starfsemin vex. Mikill áhugi fyrir þeim störfum sem í boði eru.

Nýjast