Heilbrigðisráðherra ekki myndað sér skoðun um hvort björgunarþyrla skuli staðsett á Akureyri

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra er ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við það að björgunarþyrla verði staðsett á Akureyri. Hann sagði margt mæla með því en sagðist ekki hafa myndað sér skoðun á því máli. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Þorvaldar Ingvarssonar framkvæmdastjóra lækninga við Sjúkrahúsið á Akureyri á opnum fundi um heilbrigðismál á Hótel KEA fyrr í kvöld. Þorvaldur sagði að ekki yrði hægt að gæta öryggis á Norður- og Austurlandi nægjanlega vel nema þyrla yrði staðsett á Akureyri. Eins og fram hefur komið hafa níu af tíu þingmönnum í Norðausturkjördæmi og úr öllum flokkum lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um þyrlubjörgunarsveit á Akureyri. Bæjarráð Akureyrar samþykkti bókun á fundi sínum nýlega, þar sem tekið er heils hugar undir þingsályktunartillögu um staðsetningu björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Með staðsetningu þyrlu á Akureyri er öryggi sjófarenda á hafsvæðinu fyrir norðan og austan land aukið til muna. Auk þess gegna þyrlur Landhelgisgæslunnar nú mikilvægu hlutverki við björgun á landi og þar getur fjarlægð frá slysstað ráðið úrslitum um það hvernig til tekst. Á Akureyri er góð reynsla af sjúkraflutningum og FSA er varasjúkrahús landsins. Það er því ljóst að hér er gott bakland til að styðja við þessa starfsemi. Bæjarráð skorar því á alþingismenn að styðja þingsályktunartillöguna og ríkisstjórnina að koma henni til framkvæmda.

Nýjast