Bæjarstjóri Sigrún Björk Jakobsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun á fundi bæjarráðs: "Áhyggjum og sjónarmiðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna áhrifa frumvarpsins á Akureyri og Norðurland var komið á framfæri beint á fjölmennum fundi landbúnarráðherra um þessi mál og jafnframt á fundi með forsætisráðherra."
Einnig var lögð fram eftirfarandi fyrirspurn frá Baldvini H. Sigurðssyni á fundi bæjarráðs: "Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd
sendi beiðni þann 14. apríl sl. á bæjarskrifstofur Akureyrar þess efnis að umsögn kæmi frá bænum um svokallað
matvælafrumvarp.
1. Er það rétt að bærinn hafi verið beðinn um að vera umsagnaraðili?
2. Sendi bærinn ekki inn umsögn?
3. Var bæjarráði eða bæjarstjórn, eða einhverri annarri nefnd á vegum bæjarins, kynnt að bærinn ætti að veita nefndinni
umsögn um málið?
4. Ef svarið er nei, af hverju var það ekki gert?"
Lagt var fram eftirfarandi svar bæjarstjóra:
"Öll lagafrumvörp og þingsályktunartillögur eru send til umsagnar sveitarfélaga, landshlutasamtaka og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Að
öllu jöfnu fá þau frumvörp sem áhrif geta haft á starfsemi sveitarfélaga umfjöllun hjá sambandinu. Með sama hætti fá
þau frumvörp sem talið er að geti haft svæðisbundin áhrif umsögn hjá landshlutasamtökum, Eyþingi í tilviki Akureyrar. Af þessum
ástæðum hefur í seinni tíð verið dregið mjög úr þeirri vinnu sem áður fór í að ganga frá umsögnum
af þessu tagi hjá Akureyrarbæ og þær umsagnir sem frá bænum eru sendar byggja þá á sérálitum okkar á
einstökum málum.
Ekki var send umsögn um þetta frumvarp af ofangreindum ástæðum. Ákvörðunin er tekin af bæjarstjóra í samráði við
hlutaðeigandi embættismenn. Það hefur ekki tíðkast að bera ákvarðanir sem þessar undir bæjarstjórn eða einstakar nefndir."