Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað Guðrúnu Arndísi Jónsdóttur
forstöðumann Verðlagsstofu skiptaverðs frá 1. apríl 2008 til næstu fimm ára. Guðrún Arndís lauk B.Sc námi í
viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2002 og M.Sc í viðskiptafræði frá sama skóla árið
2007. Lokaverkefni hennar til M.Sc gráðu fjallar um
Launakerfi íslenskra sjómanna. Hún hefur 14 ára starfsreynslu úr sjávarútvegi
og hefur verið aðstoðarmaður framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja frá 1996.
Hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs er m.a. að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu
uppgjöri á aflahlut þeirra. Birting upplýsinga um fiskverð er mikilvægur þáttur í starfsemi stofunnar.