Guðmundur ráðinn sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar

Akureyringurinn Guðmundur Jóhannsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar en hann var valinn úr hópi 33 umsækjenda um stöðuna. "Mér líst mjög vel á þetta starf og hlakka til að takast á við verkefnið, enda eru mikil tækifæri í sveitarfélaginu," sagði Guðmundur í samtali við Vikudag. Guðmundur tekur við starfinu af Bjarna Kristjánssyni í maí nk. og mun gegna því næstu tvö árin, eða fram að næstu sveitarstjórnarkosningum. Guðmundur hefur starfað mikið að bæjarmálum á Akureyri, verið varabæjarfulltrúi og setið í ýmsum nefndum. Guðmundur hefur búið í Bandaríkjunum sl. tvö ár en áður starfaði hann sem þjónustustjóri Símans á Norðurlandi. Þá stofnaði hann fyrirtækið Straumrás árið 1985 og stýrði því til fjölda ára og var einn eigenda og stjórnarformaður Sandblásturs og málmhúðunar í mörg ár. Hann er kvæntur Evu Þórunni Ingólfsdóttur og eiga þau fjögur börn. Guðmundur býr á Akureyri en segist nú fara að leita sér að húsnæði í Eyjafjarðarsveit.

Nýjast