Þórsarar unnu í kvöld mjög góðan sigur á Grindvíkingum í Iceland Expressdeild karla í körfubolta. Leikurinn fór fram í Íþróttahúsi Síðuskóla og var æsispennandi allan tímann þar sem barátta og ákveðni var í fyrirrúmi.
Leikurinn hófst fjörlega og var skemmtilegur sóknarleikur aðalsmerki hjá báðum liðum, eilítið á kostnað varnarleiksins. Hvorki fleiri né færri en 66 stig voru skoruð í 1. leikhluta og skiptu liðin þeim bróðurlega á milli sín því að staðan eftir hann var 33-33.
Í öðrum leikhluta virtist sem Grindvíkingar væru að ná yfirhöndinni í leiknum því að þeir skoruðu nokkrar auðveldar körfur á meðan að Þórsarar gerðu sig seka um nokkur klaufaleg mistök. Einnig létu þeir dómara leiksins aðeins fara í taugarnar á sér enda féllu mörg vafaatriði gestunum í vil. Staðan í hálfleik var þannig að Grindavík leiddi með tíu stiga mun 57-47.
Í þriðja leikhluta gerðu Þórsarar gestum sínum strax ljóst að þeir myndu ekki fara heim með stigin auðveldlega. Þeir komu til leiks með gríðarlega baráttu að vopni og tókst að minnka muninn niður í sex stig áður en flautað var til loka leikhlutans í stöðunni 76-70.
Fjórði og síðasti leikhluti var gríðarlega spennandi og hin mesta skemmtun. Grindvíkingar leiddu framan af leikhlutanum en þegar um sex mínútur lifðu leiks jöfnuðu Þórsarar 85-85 og allt ætlaði um koll að keyra hjá áhorfendum, raunar var stemmningin frábær á þessum leik mestallan tímann.
Eftir að hafa jafnað leikinn litu Þórsarar aldrei um öxl. Þegar um 2 mínútur voru eftir var staðan 96-93 fyrir Þór og spennan rosalega hjá bæði leikmönnum og áhorfendum. Sem betur fer þó fyrir Þórsara náðu þeir að halda haus og lönduðu að lokum feykilega sætum sigri 104-98.