Góður sigur hjá Akureyri

Leikur Akureyrar og HK í KA-heimilinu í dag var æsispennandi undir lokin þar sem heimamenn náðu þó að vinna góðan eins marks sigur að lokum 26-25. Þrátt fyrir að sigurinn væri naumur, var hann sanngjarn þar sem Akureyri hafði forystuna nær allan tímann.

Til að byrja með var leikurinn jafn en smám saman tók Akureyri yfirhöndina og náði mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik. Undir lok hálfleiksins slökuðu þeir of mikið á og áttu slakan kafla, HK gekk á lagið og forysta Akureyrar var aðeins eitt mark í hálfleik 13-12. Akureyri byrjaði síðari hálfleikinn betur og hafði tveggja til fjögurra marka forystu mest allan tímann. Seinni part hálfleiksins hins vegar fór HK að vinna á forskotinu og úr varð æsispenna í lokin. Heimamenn náðu þó að landa sigrinum með skynsamlegum leik á lokakaflanum og virðast vera langt komnir með að ná sér niður á lokamínútna draugnum fræga sem lýsir sér í því að liðið tapi með einu marki í lok leikja, eins og svo oft í vetur.

Nánar verður fjallað um leikinn í Vikudegi næsta fimmtudag.

Nýjast