Góðtemplarareglan á Akureyri gefur FSA 50 milljónir króna

Góðtemplarareglan á Akureyri afhenti í dag Sjúkrahúsinu á Akureyri 50 milljónir króna að gjöf til stofnunar á sérstökum sjóði sem varið verður til kaupa á tækjum og búnaði til greiningar og meðferðar hjartasjúkdóma á FSA. Fram kom í máli Halldórs Jónssonar forstjóra FSA við þetta tækifæri að hér væri um ræða eina af stærstu ef ekki stærstu gjöf sem sjúkrahúsið hefur fengið frá upphafi. Það var Árni Valur Viggósson, stjórnarformaður Góðtemplarareglunnar á Akureyri, sem afhenti gjöfina. Góðtemplarareglan á Akureyri var stofnuð 10. janúar 1884 á heimili Friðbjörns Steinssonar bóksala Aðalstræti 46 á Akureyri. Stúkustarf í bænum var með miklum blóma í á annað hundrað ár og var það undirstaða forvarna- og mannúðarstarfs sem og menningar- og listastarfsemi í bæjarfélaginu um langt árabil. Til að standa straum af umfangsmiklu starfi sínu stofnuðu stúkurnar til ýmis konar fyrirtækjareksturs og byggðu stórhýsi undir starfsemina. Þau setja enn þann í dag sterkan svip á bæjarmyndina og má þar nefna Samkomuhúsið, Skjaldborg og Borgarbíó. Þá áttu og ráku stúkurnar einnig Hótel Varðborg um langt skeið. Nýjar leiðir og áherslur ráða nú ferðinni á því sviði sem Góðtemplarareglan starfaði. Fyrirtæki hennar og hús hafa verið seld og hluti andvirðis þeirra verið notaður til að gera upp Friðbjarnarhús við Aðalstræti. Þar hafa stúkurnar komið upp safni yfir hið merkilega starf sitt og er nú verið að leggja lokahönd á enduruppbyggingu þess. Þeir fjármunir sem eftir eru af tæplega 125 ára starfi Góðtemplarareglunnar á Akureyri hafa nú verið afhentir Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Nýjast