Góð aðsókn á ljósmyndasýningu Minjasafnsins

Aðsókn að ljósmyndasýningunni; Þekkir þú...fjölbreytileika mannlífsins? á Minjasafninu á Akureyri hefur farið fram úr björtustu vonum starfsfólks Minjasafnsins. Svörun almennings hefur verið einstök þar sem bæjarbúar og aðrir áhugasamir gestir safnins hafa greint um 75% myndanna. En betur má ef duga skal, segir í tilkynningu frá safninu er og fólk því hvatt til þess að koma og vita hvort það getur komið með nýjar upplýsingar um myndirnar eða komið með heiti á fólk, mannvirki og/eða sagt til um tilefni myndarinnar.  Þekkir þú...fjölbreytileika mannlífsins? samanstendur af 70 óþekktum myndum Minjasafnsins á Akureyri. Þær eru teknar víða um landið á árunum 1920-1960 og eru flestar úr safni ljósmyndastofu Jóns og Vigfúsar á Akureyri. Starfsfólk Minjasafnsins skorar fólk að láta þessa áhugaverðu sýningu ekki fram hjá sér fara fremur en sýningarnar Akureyri bærinn við Pollinn eða Eyjafjörður frá öndverðu. Ljósmyndasýningin stendur til 26. apríl alla laugardaga frá 14-16 og aðgangur að safninu er ókeypis á meðan á henni stendur.

Nýjast