Gjörgæslan er meira en vinna - þetta verður hluti af okkur og lífi okkar

Ásdís Skúladóttir, gjörgæsluhjúkrunarfræðingur á SAk                          Mynd SAk.is
Ásdís Skúladóttir, gjörgæsluhjúkrunarfræðingur á SAk Mynd SAk.is
„Þú veist aldrei hvernig dagurinn verður,“ segir Ásdís Skúladóttir, gjörgæsluhjúkrunarfræðingur á SAk, þegar hún lýsir starfinu sínu. „Við erum alltaf að læra eitthvað nýtt og verkefnin eru síbreytileg. Þetta starf heldur manni á tánum – og það er einmitt það sem heillar.“
Ásdís hóf feril sinn á SAk árið 1992 sem sjúkraliðanemi. Hún starfaði á lyfjadeild og í heimahjúkrun áður en hún fór í hjúkrunarnám við Háskólann á Akureyri. „Ég ætlaði reyndar að verða ljósmóðir,“ segir hún og brosir, „en eftir að hafa verið beðin um að vinna á gjörgæslunni eitt sumar varð ekki aftur snúið. Þar hef ég starfað síðan.“
 
Krefjandi og gefandi starf

 Á gjörgæsludeild SAk er unnið með alvarlega veika sjúklinga – eftir slys, skurðaðgerðir, sýkingar, hjarta- og blóðrásarvandamál, eitranir og öndunarerfiðleika o.fl. „Við erum með fjölbreyttan sjúklingahóp, ef ekki væri fyrir gjörgæsluna gætum við ekki veitt nauðsynlega þjónustu eins og skurðaðgerðir og fæðingar hér á spítalanum,“ útskýrir Ásdís. „Við erum varasjúkrahús fyrir landið – það er mikilvægt öryggisatriði, ekki bara fyrir Norðurland heldur allt landið.“ Starfið er bæði tæknilegt og krefjandi. Á gjörgæslunni eru notaðar öndunarvélar, nýrnavélar og fjölbreyttur tækjabúnaður sem krefst sérhæfðrar þekkingar. „Góður búnaður og aðstaða skiptir miklu máli, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Unnið er í að endurbæta deildina og við höfum fengið nýjan búnað að hluta og bíðum eftir meir. En við þurfum stöðugt að bæta aðstæður og halda áfram að þróa starfsemina.“

Teymisvinna, aðlögun og stuðningur

 Ásdís leggur mikla áherslu á mikilvægi teymisvinnu og trausts milli starfsstétta. „Við vinnum öll saman – hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfarar, aðstoðarfólk o.fl. Þetta er teymisvinna frá grunni og allir skipta máli.“ Einnig er mikil áhersla lögð á samstarfi við aðrar deildar og á vel skipulagða aðlögun fyrir nýtt starfsfólk. „Við viljum taka vel á móti fólki og tryggja að það fái stuðning frá byrjun. Starfið krefst mikillar ábyrgðar og þekkingar – en við byggjum upp öryggi og færni saman.“

Fagmennska og fjölskylduhjúkrun hjartað í starfinu

 Fjölskylduhjúkrun er stór hluti af starfi gjörgæsluhjúkrunarfræðinga, enda oft langir legutímar og erfiðar aðstæður. „Við höfum stundum líf fólks í okkar höndum í langan tíma. Þegar við sjáum sjúkling rísa upp eftir vikur eða mánuði – þá er það það sem gefur manni mest. Það er ólýsanleg tilfinning að sjá árangurinn.“

Aðspurð hvað haldi henni í starfinu öll þessi ár, svarar Ásdís: “Mér þykir gaman að takast á við áskoranir, láta gott af mér leiða, læra nýja hluti og svo á ég frábært samstarfsfólk.”

Það var heimasíða SAk, sem fyrst birti

 

 

Nýjast