Giljaskóli og Grunnskóli Siglufjarðar í úrslit í Skólahreysti

Lið Giljaskóla á Akureyri og lið Grunnskóla Siglufjarðar tryggðu sér sæti í úrslitum í Skólahreysti 2008, sem fram fara í Laugardalshöll 17. apríl nk. Tvær keppnir fóru fram í Íþróttahöllinni Akureyri í gær, þar sem alls 18 skólar kepptu í tveimur riðlum. Í fyrri riðlinum kepptu skólar úr dreifbýli, alls ellefu lið. Keppnin var jöfn og spennandi og voru það lið Reykjahlíðarskóla, Dalvíkurskóla og Grunnskóla Siglufjarðar sem leiddu keppnina allan tímann en síðastnefndi skólinn hafði sigur. Í seinni riðlinum voru sjö lið frá Akureyri og nágrenni. Riðillinn var jafn og sterkur en sem fyrr sagði hafði lið Giljaskóla sigur. Lið Giljaskóla náði að halda forystu alla keppnina með mikilli keppnishörku og vinna riðilinn á 31 stigi. Þelamerkurskóli hafnaði í öðru sæti með 29 stig og Síðuskóli varð í þriðja sæti með 25,5 stig. Akureyringar troðfylltu Íþróttahöllina þegar keppni í seinni riðlinum fór fram. Jónsi og Ívar Guðmundsson sáu um að stemningin væri fjörug og frábær og í stíl við hrausta norðlenska unglinga. Stuðningsmenn og áhorfendur létu sig heldur ekki vanta þegar keppni í fyrri riðlinum fór fram og létu vegalengdir ekki stöðva sig. Forsvarsmenn skólanna fylltu rútur af stuðningsmönnum og fjölmenntu í Íþróttahöllina. Um sexhundruð krakkar með skilti, trommur, flautur og stuðningslög.

Nú eru eftirtaldir átta skólar komnir í úrslit : Foldaskóli, Hagaskóli, Heiðarskóli/Reykjanesbær, Lindaskóli, Hvolsskóli, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar, Grunnskóli Siglufjarðar og Giljaskóli.

Nýjast