Þegjandadalur er um 7 km langur dalur sem gengur inn til suðurs frá Grenjaðarstað, milli Þorgerðarfjalls og Múlaheiðar. Ástand minja á Þegjandadal er gott og óvenjulegt að svo heilleg búsetumynd frá fyrri öldum hafi varðveist í miðri landbúnaðarsveit. Á það sérstaklega við minjar í dalnum vestanverðum en þar má sjá umfangsmiklar leifar býla, vallargarða og garðakerfis. Á Þegjandadal má finna minjar um 8 bæi, en alls eru skráðar 166 minjar á dalnum. Flestar þeirra virðast vera frá þeim tíma sem byggð var blómleg í dalnum, þó sumar tilheyri seinni tímum. Á öllum jörðunum átta á dalnum eru skráðir bæjarhólar. Helstu tegundir minja í heimatúnum auk bæjarhóla voru bænhús, útihús túngarðar og gerði. Í tengslum við fornleifaskráninguna og rannsókn á fornum garðalögum í Suður-Þingeyjarsýslu voru öll garðalög á dalnum gengin og hnitsett, og síðsumar 2006 voru 4 prufuskurðir grafnir í garðana. Niðurstöður úr þeim rannsóknum voru þær að garðarnir hafi ekki verið reistir síðar en á 10. öld. Þeir eru án efa reistir í tengslum við byggð á dalnum og því má telja líklegt að byggð hafi komst þar á snemma eða á 10. öld. Hinir miklu vörslu- og landamerkjagarðar eru eitt helsta einkenni minjasvæðisins í Þegjandadal. Garðarnir eru hluti af miklu neti garða sem nær yfir stóran hluta Suður-Þingeyjarsýslu og víðar. Á Þegjandadal gefst einstakt tækifæri til að rannsaka garðakerfið í byggð enda er það nær alveg óskemmt vestan megin í dalnum og greinilegt á talsverðum kafla að austan.
Á tveimur innstu bæjunum í dalnum vestanverðum hafa verið skráð meint bænhús, þar er um að ræða litlar tóftir inni í hringlaga gerðum. Gerðin eru staðsett ofarlega í túni og skammt norðan við ætlaða bæjarhóla.Færa má rök fyrir því að dalurinn hafi verið kominn í byggð þegar á 10. öld. En erfiðara er að fullyrða nokkuð um hvenær og hvers vegna dalurinn fór í eyði. Flestar kenningar um það miðast við að dalurinn hafi varið í eyði í upphafi 15. aldar eða fyrr. Það fer vel saman við kenningar um breytingar á búskap á Íslandi eftir pláguna 1402-1404. Sem kemur heim og saman við að kirkjustaðirnir hafi ekki viljað að dalurinn færi í byggð því þeir hafi þurft á beitilandinu að halda. Þannig bendir flest til að dalurinn hafi verið í byggð ekki seinna en frá 10. öld og lagst í eyði um eða fyrir 1400.
(heimild: Elín Ósk Hreiðarsdóttir. 2007. Fornleifaskráning á Þegjandadal: Niðurstöður rannsókna á dalnum sumurin 2005-2006. Fornleifastofnun Íslands. Reykjavík)
Hið Þingeyska fornleifafélag er áhugamannafélag en Fornleifastofnun Íslands er vísindalegur ráðgjafi félagsins og annast skráningar og rannsóknir á vegum þess. Hið Þingeyska fornleifafélag hefur á síðustu árum staðið fyrir rannsóknum m.a. á Litlu Núpum, á Seljadal og á Þegjandadal. Í sumar hefur verið unnið á öllum þessum stöðum. En félagið hefur það líka sem markmið að miðla niðurstöðum rannsókna til heimamanna og gesta. Gönguferðirnar tvær sem farnar voru fram á Þegjandadal eru liður í þeirri kynningu. Sif Jóhannesdóttir starfsmaður Hins þingeyska fornleifafélags leiddi göngurnar og skrifaði þennan pistil.
Á Ingiríðarstöðum stýrir Howell Magnus Roberts uppgreftrinum ásamt hópi fornleifafræðinga. Þar hafa m.a. fundist meint plógför í afmörkuðum gerðum sem gefa vísbendingar um akuryrkju á fyrstu öldum landnáms og það vinnulag sem var beitt við hana. Einnig er grafið í kumlateig og meint bænhús. Margir áhugaverðir gripir hafa fundist í sumar ásamt fjölda vísbendinga um líf þeirra sem eitt sinn bjuggu í dalnum. Meðal þess sem fannst í kumli eru perlur,beltissylgja og bein.
Þegar fyrri gönguhópurinn heimsótti Ingiríðarstaði var verið að rannsaka meint plógför. Þar voru ásamt fornleifafræðingunum sem starfa að uppgreftrinum frjókornafræðingar sem munu rannsaka jarðveginn. Hópurinn fékk ekta íslenskt veður glampandi sól á leiðinni inn dalinn og úrhellisrigningu á bakaleiðinni. Jafnvel vottaði fyrir hagléli.
Sama dag og seinni ferðin var farinn hafði fundist heilmikið af gripum í kumli. Lilja Björk Pálsdóttir og Ólafur Stefánsson sýndu gripina og fræddu gestina um uppgröftinn, tilganginn með honum og vísbendingarnar sem uppgröftur á dalnum hefur þegar gefið um lífið þar fyrr á öldum.
En það var ekki eina fræðslan sem fram fór í göngunum, mikið af heimamönnum var með í för. Þeirra þekking á staðháttum og sögu svæðisins var ekki síður mikils virði og gerðu göngurnar enn fróðlegri en ella.