Fyrri hálfleikur í leik KA og Hauka var lítið fyrir augað og grútleiðinlegur á að horfa. Í seinni hálfleik tóku liðin hins vegar við sér og fyrsta mark leiksins kom á 50. mínútu og það skoraði Guðmundur Óli Steingrímsson fyrir KA eftir hornspyrnu. Haukar náðu að jafna metin á 62. mínútu með marki frá Denis Curic. En varnarmaðurinn Þórður Arnar Þórðarsson tryggði KA-mönnum fyrsta sigur sumarsins með þrumuskoti fyrir utan teig í slá og inn á 76. mínútu. Geysilega mikilvægur sigur hjá KA-mönnum sem hafa 5 stig í deildinni eftir fjóra leiki. Þórsarar eru með sex stig eftir tvo sigra og tvö töp.