Fyrsta græna stóriðjan á Íslandi gangsett í Krossanesi

Starfsemi er hafin í aflþynnuverksmiðju Becromal á Ísland sem er í Krossanesi. Fyrst um sinn verða tvær vélar af alls 64 teknar í notkun en fyrstu vörurnar í verksmiðjunni urðu til í gærkvöld. Rúmt ár mun líða áður en allar vélarnar verða ræstar. Uppbygging verksmiðjunnar hefur gengið vel, en tvö ár eru liðin síðan raforkusamningur vegna starfseminnar á Íslandi var undirritaður.  

Tvær vélasamstæður voru gangsettar í síðustu viku en alls verða tuttugu vélar komnar af stað um áramótin. Undir lok næsta árs er stefnt að því að fullum afköstum verði náð með 64 vélasamstæðum.  „Við vorum einkum að fagna því að allt er á áætlun, við gagnsettum fyrstu vélina og undirbúningur er í fullum gangi varðandi framhaldið," segir Gauti Hallsson framkvæmdastjóri Becromal á Íslandi, en fyrsta vélin var formlega ræst fyrir liðna helgi.

Aflþynnur eru aðalhráefnið í rafþéttum en þar er orka geymd í þeim vörum sem þurfa að halda spennu. Dæmi um það eru orkulausnir til orskuspörunar, til að mynda rafbílar og ýmislegt fleira. Becromal er leiðandi framleiðandi í slíkum aflþynnum í heiminum með um 16% markaðshlutdeild en verksmiðjan verður sú lang stærsta sinnar tegundar í Evrópu. Verksmiðjan er græn stóriðja en engin mengun fylgir verksmiðjunni og engin spilliefni.

 Eina losunin frá verksmiðjunni er sjór sem er endurnýttur til að kæla vélarnar.

Nú starfa rúmlega 20 manns hjá Bercomal og mun starfsfólki fjölga smám saman og verða um eða yfir 80 talsins í lok næsta árs að sögn Gauta.  Meirihluti starfsmanna verður Íslendingar.

Heildarfjöldi starfa þegar allt verður komið í fullan gang - ásamt afleiddum störfum - er talinn verða nærri þrjú hundruð.

Verksmiðjan notar um 640 Gígawattstundir af rafmagni á ári sem er um fimm sinnum meira rafmagn en Eyjafjarðarsvæðið notar árlega. Aflþynnurnar verða aðallega fluttar út til Evrópu en jafnframt til Bandaríkjanna, Kóreu og Japan. Útflutningsverðmæti verksmiðjunnar verður um 14 milljarðar á ári. Gauti segir menn bjartsýna nú þegar verksmiðjan er komin í gang.  Of snemmt sér að segja fyrir um það nú hvort hún muni stækka á komandi árum, en möguleikarnir séu fyrir hendi, lóð og samningar, en efnahagsþrengingar í heiminum hafi eins og annað áhrif á markað með aflþynnur.

Nýjast