Alma D. Möller heilbrigðisráðherra, Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri, aðstoðarmaður ráðherra og sérfræðingur ráðuneytisins á sviði mannauðsmála funduðu í gær með framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), fulltrúum lækna og fagráði SAk vegna erfiðrar stöðu á SAk við mönnun ákveðinna sérgreina, þá sér í lagi lyflækninga.
„Það var ákaflega mikilvægt að fá heilbrigðisráðherra og hennar samstarfsfólk norður í gær til að ræða stöðu sjúkrahússins og mögulegar lausnir, bæði til lengri og skemmri tíma. Þetta var kærkomið tækifæri fyrir stjórnendur SAk að fara yfir stöðuna og mögulegar leiðir til úrbóta. Það var gott að heyra hversu mikla áherslu heilbrigðisráðherra leggur á að efla Sjúkrahúsið á Akureyri, þannig að það sé í stakk búið að veita þá þjónustu sem íbúar þurfa.“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.
„Það er hins vegar mjög mikil vinna fram undan, bæði vegna þess aðkallandi vanda sem við okkur blasir, sem og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á okkar starfssvæði til lengri tíma. Ég er sannfærð um að við munum öll; framkvæmdastjórn, heilbrigðisráðherra, heilbrigðisráðuneytið, þingmenn, sveitarstjórnarfólk, sem og okkar góða heilbrigðisstarfsfólk, taka höndum saman og vinna samhent að lausnum, til hagsbóta fyrir íbúa.“
Alma segir vanda sjúkrahússins ekki nýtilkominn og löngu sé orðið tímabært að bregðast við. Grípa þurfi til ráðstafana til skamms tíma til að tryggja læknamönnun næstu vikur og mánuði. Þær aðgerðir felast í yfirferð á nýjum kjarasamningi lækna, með það að markmiði að nýta samninginn sem best til að tryggja mönnun. Þá er unnið að áætlun í samvinnu við Landspítala auk þess sem forstjóri SAk hefur þegar sett af stað vinnu við að skoða hvernig þörfum fyrir dag- og göngudeildarþjónustu verði mætt.
Þessar skammtímaaðgerðir eru á forræði forstjóra og framkvæmdastjórn en ráðuneytið mun styðja við þær eftir þörfum. Þegar kemur að framtíðarsýn og langtímaaðgerðum þá er markmiðið að byggja upp þjónustu á SAk í takti við þarfir íbúa og í samhengi við aðra þjónustu sem veitt er á svæðinu. Nauðsynlegt er að styrkja SAk og tryggja að það geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem varasjúkrahús en það er einnig liður í því að byggja upp áfallaþol íslensks samfélags.
„Til þess þarf að greina verkefni sjúkrahússins og móta stefnu til framtíðar og mun ég setja þá vinnu af stað á næstu dögum. Þá hef ég tekið ákvörðun, í samráði við forstjóra, um að fá utanaðkomandi aðila til aðstoðar forstjóra við að yfirfara rekstur SAk en verulega hefur verið bætt í reksturinn á undanförnum árum og til stendur að veita 1,4 milljarða viðbót inn í reksturinn á næsta ári.“
SAk.is sagði frá