31. desember, 2007 - 15:26
Félagar í Súlum björgunarsveitinni á Akureyri ásamt umsjónarmönnum bátsins Húna II stóðu í ströngu í
hvassviðrinu í gær við að festa bátinn eftir að fremsti hluti Torfunefsbryggjunnar fór að losna í miklum sjógangi. Til stendur að
færa Húna innar í víkina norðan við Torfunefnsbryggju. Fremsti hluti Torfunefsbryggju er úr timbri og hafði hann losnað frá steypta hluta
hennar. Í heildina fór björgunarsveitin í átta útköll seinni partinn í gær sem öll tengdust óveðri.
Á þriðja tímanum í gær var björgunarsveitin kölluð út til að sinna útköllum vegna óveðurs í bænum og
í næsta nágrenni. M.a. var þakkantur að fjúka af húsi við Gránufélagsgötu, ruslagámur fauk við Hvannavelli,
þak að fjúka af íbúðarhúsi á Svalbarðsströnd og uppsláttur við Öngulsstaði í Eyjafjarðarsveit. Alls
tóku 17 menn frá sveitinni þátt í þessum aðgerðum, sem lauk um kl. 19 og fóru þá menn aftur að sinna
flugeldasölunni af krafti.