Franskir skíðagöngumenn sóttir á hálendið ofan Eyjafjarðar

Súlur, björgunarsveitin á Akureyri, og Hjálparsveitin Dalbjörg í Eyjafjarðarsveit voru kallaðar út eftir hádegi í gær til að sækja tvo franska skíðamenn að Urðarvötnum á Nýjabæjarafrétti þar sem þeir dvöldu í tjaldi og gátu sig hvergi hreyft vegna veðurs. Lögðu þeir af stað úr Eyjafirði á mánudag og ráðgerðu að ganga suður yfir hálendið á 12 dögum og enda ferðina við Skóga undir Eyjafjöllum. Voru mennirnir vel búnir og gáfu upp staðsetningu og óskuðu eftir því að þeir yrðu sóttir. Veðurskilyrði á svæðinu voru mjög slæm og voru mennirnir hjálpinni fegnir eftir þessar hrakfarir. Mennirnir voru fluttir á sleðum í bílana sem komu upp Vatnahjallann. Þeir voru þá orðnir ískaldir eftir veruna í tjaldinu en hresstust fljótlega eftir að þeir komu í heitan bílinn. Björgunarsveitirnar héldu niður til byggða með mennina og voru komnar um kl. 17.00 í Grænuhlíð þar sem húsráðendur voru með heitt á könnunni og bakkelsi handa liðinu. Úr sveitinni voru mennirnir svo fluttir til Akureyrar þar sem þeir gistu á hóteli í nótt en halda síðan heim á leið í dag. Þetta kemur fram á vefsíðum sveitanna.

Nýjast