Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju á Akureyri og fulltrúi Alþýðusambands Íslands í Verðlagsnefnd búvara, sat
hjá þegar nefndin tók ákvörðun um hækkun á verði mjólkur og mjólkurafurða. Í bókun Björns kemur fram að
hann hafi verið tilbúinn til að standa að ákvörðun um hækkun á búvörum þar sem tekið væri tillit til
kostnaðarhækkana á kjarnfóðri, áburði, eldsneyti o.fl. Hann gat hins vegar ekki staðið að ákvörðun um hækkun á
vaxtalið grundvallar. Hann telur að hagsmunum bænda, eins og annarra stétta í landinu, sé betur borgið með því að ná niður
verðbólgu. Hækkun á vaxtalið grundvallarins muni hafa gagnstæð áhrif.
Verðlagsnefnd búvöru hefur tekið ákvörðun um hækkun á verði mjólkur og mjólkurafurða, segir ennfremur á vef
Einingar-Iðju. Áður en ákvörðun þessi var tekin lá fyrir krafa framleiðenda um verulegar verðhækkanir á grundvelli mikilla
kostnaðarhækkana á kjarnfóðri, áburði og eldsneyti auk hækkana á vöxtum. Fulltrúar ASÍ og BSRB í nefndinni voru
tilbúnir til að taka tillit til þessara sjónarmiða en beittu sér samt fyrir því að takmarka eins og frekar væri kostur að
kostnaðarhækkununum væri hleypt út í almennt verðlag. Niðurstaðan varð sú að verð á mjólk og mjólkurafurðum mun
hækka talsvert hinn 1. apríl nk. Verðið hækkar vissulega ekki eins mikið og framleiðendur höfðu farið fram á, en samt meira en fulltrúi
ASÍ gat sætt sig við. Það var sú ákvörðun að velta hluta vaxtahækkana út í matvöruverð sem hann gat ekki
staðið að.