Fjöldi farþega milli Akureyrar og Reykjavíkur svipaður og í fyrra

"Ástandið er með svipuðum hætti og var í fyrra," segir Ari Fossdal vaktstjóri hjá Flugfélagi Íslands á Akureyrarflugvelli, en bætir við að fyrstu vikuna í júlí hafi þó færri farþegar farið um völlinn vegna framkvæmda við lengingu flugbrautar.   

Þá var ekki hægt að selja jafnmörg sæti í vélarnar, þær urðu að vera léttari en vanalega. Tölur um fjölda farþega liggja ekki fyrir en Ari segir að menn hafi á tilfinningunni að fjöldinn í ár, "rétt hangi í því sem hann var í fyrra."  Hann segir samdrátt í þjóðfélaginu fremur bitna á utanlandsflugi en innanlands, farþegar á milli áfangastaða innanlands sé í miklum mæli fólk sem á erindi af einhverjum toga á milli staða.  "Við vitum lítið á þessari stundu um hvernig mál þróast og hvað gerist með haustinu, en raunar er fyrirsjáanlegt að það verður töluvert að gera í utanlandsflugi héðan, bæði er um að ræða borgar- og sólarferðir," segir Ari.

Hann segir Flugfélagið halda áfram af fullum dampi og bjóða upp á 7 til 13 ferðir á dag, þannig að miðað við árferði geti menn ekki kvartað. "Það gengur bara vel," segir hann.  Framkvæmdir við lengingu flugbrautar segir hann ekki hafa raskað innanlandsflugi og flugvallarstarfsmenn átt góð samskipti við verktaka, en nú sjái menn fram á að framkvæmdum fari að ljúka.

Nýjast