21. febrúar, 2008 - 13:09
Skólastarfið hjá Sjúkraflutningaskólanum á Akureyri var viðamikið og fjölbreytt á síðasta ári en starfsemi skólans
hefur aldrei verið meiri frá því að skólinn tók til starfa fyrir fimm árum. Námskeiðin fóru fram á öllu landinu,
ýmist í heimabyggð sjúkraflutningamanna eða með notkun myndfundabúnaðar. Á árinu 2007 voru haldin 47 námskeið og er það
34% aukning frá árinu áður. Þátttakendur voru samtals 677 sem er 40% aukning frá árinu 2006. Flestir þátttakenda á
námskeiðum voru sjúkraflutningamenn eða 72% en einnig tóku þátt hjúkrunarfræðingar (17%), læknar (7%) og aðrir (5%).
NPP verkefnið, um sjúkraflutninga og þjónustu í dreifbýli, sem Sjúkraflutningaskólinn og FSA hafa stjórnað undanfarin þrjú
ár, lauk 30. nóvember 2007. Sameiginlegir verkefnafundir fóru fram í Skotlandi í maí og á Íslandi í lok október í fyrra.
Lokafundur tengdur verkefninu var haldinn í Bláa lóninu 31. október 2007 og var hann vel sóttur af hópi fólks sem tengist sjúkraflutningum
á einn eða annan hátt. Önnur verkefni sem Sjúkraflutningaskólinn hefur tengst er m.a. aðild að endurlífgunarráði landlæknis en
þar hefur ötullega verið unnið að inngöngu Endurlífgunarráðs landlæknis í evrópska endurlífgunarráðið (ERC) og
þjálfun leiðbeinenda svo þeir öðlist ERC kennararéttindi. Skólastjóri var jafnfram fulltrúi FSA í nefnd sem
heilbrigðisráðherra skipaði í september 2007 en tilgangur nefndarinnar var að fjalla um skipulag sjúkraflutninga, menntunarmál og mönnun í
sjúkraflutningum á landsbyggðinni. Þetta kemur fram á vef FSA.