Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt samruna Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga (SPNOR) og miðast samruninn við 1. júlí
sl. Samþykki stofnfjáreigenda beggja sjóða liggur fyrir en beðið er eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins. Um síðustu áramót
námu eignir Byrs um 200 milljörðum króna. Með sameiningunni verður til enn eitt úitbúið á Akureyri en um leið verður til mun
öflugri fjármálastofnun. Á fundi stofnfjáreigenda SPNOR í nóvember sl. var samþykkt samhljóða að auka stofnfé
sjóðsins um 2,7 milljarða króna að nafnvirði, í tengslum við sameininguna við Byr. Stofnfjáraukningin gekk vel, allir stofnfjáraðilar
tóku þátt í aukningunni og óskuðu þeir eftir að kaupa talsvert meira stofnfé en það sem útboðið
hljóðaði upp á.
Útboðinu lauk skömmu fyrir jól en stofnfjáreigendur áttu rétt til þess að skrá sig fyrir auknu stofnfé í réttu
hlutfalli við stofnfjáreign sína. Þetta þýddi að stofnfjáreigandi sem átti 1% hlut var að auka hlut sinn um 27 milljónir
króna. Tveir stærstu eigendur stofnfjár í SPNOR, sem áttu fyrir 6,4 milljónir króna að nafnvirði, eða 4,18% stofnfjár, hafa að
sama skapi aukið sinn hlut um vel á annað hundrað milljónir króna. Alls eru stofnfjáreigendur í Sparisjóði Norðlendinga um 135 talsins.